Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttir öldungadeildar

16. ágúst 2010

Vorferđ í Húnaţing 9.-10. júní 2010

Hópurinn við leiði Agnesar og Friðriks á TjörnHópurinn á Tjörn, Vatnsnesi

Miðvikudaginn 9. júní 2010 var lagt upp frá Álftamýri 9 í fræðsluferð öldungadeildarinnar á söguslóðir síðustu aftöku á Íslandi 1830. Þátttakendur voru 13 lögfræðingar ásamt sex mökum þeirra. Fararstjóri var Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Lögfræðingafélagsins.

  Fyrsti áfangastaður ferðarinnar var Hvammstangi en áningarstaðir á leiðinni voru Hyrnan í Borgarnesi og Staðarskáli í Hrútafirði. Á Hvammstanga var skoðað handverkshúsið Gallerí Bardúsa og verslunarminjasafnið þar sem áður var verslun Sigurðar Davíðssonar. Af tæknilegum mistökum varð dvöl þar ívið lengri en áætlað var en þaðan var haldið að Illugastöðum á Vatnsnesi þar sem fram var borið kaffi og meðlæti.

  Illugastaðir er vettvangur ódæðis þess sem framið var aðfaranótt 14. mars 1828 þegar myrtir voru þeir Natan Ketilsson bóndi þar og Pétur Jónsson aðkomumaður. Samkvæmt dómi í málinu töldust þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir hafa framið morðið ásamt Sigríði Guðmundsdóttur. Þau voru öll dæmd til dauða og voru þau Friðrik og Agnes hálshöggvin að Þrídröngum í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830. Sigríður Guðmundsdóttir fékk náðun konungs af dauðarefsingunni en skyldi sæta ævilangri fangelsisvist og var flutt til Kaupmannahafnar á Brimarhólm þar sem hún lést eftir nokkurra ára dvöl.

ŢrístaparHópurinn á Þrístöpum þar sem síðasta aftakan fór fram

  Á leiðinni höfðu þau Eyrún og Hrafn rakið ítarlega sögu morðanna og réttarhaldanna. Frá Illugastöðum var haldið að kirkjustaðnum Tjörn. Í kirkjugarðnum þar er að finna leiði Agnesar og Friðriks. Þau voru að aftöku lokinni dysjuð við Þrídranga en síðar voru líkin greftruð að Tjörn og er af þeim líkflutningi merkileg saga.

HvítserkurHrafn Bragason, formaður öldungadeildar við Hvítserk

  Síðan var ekið fyrir Vatnsnes og horft til Hindisvíkur þar sem eru mikil selalátur og áfram að Hvítserk. Var gengið að útsýnispalli sem reistur hefur verið til að auðvelda skoðun drangsins. Á leiðinni í næturstað að Gauksmýri var numið staðar við minnismerki um Hafliða Másson í landi Breiðabólsstaðar. Höfðu menn orð á því að minnismerkið þarfnaðist aðhlynningar.

Söngstund Setustofa Í setustofu 2

Í setustofunni á Gauksmýri eftir viðburðaríkan dag.

 Komið var til gististaðarins að Gauksmýri í tíma til að snæða kvöldverð. Áður en ferðalangar gengu til hvílu var um stund sest að rabbi í setustofu gististaðarins og þar bauð Eyrún fararstjóri upp á fjöldasöng undir stjórn og gítarleik móður sinnar Sigríðar Karlsdóttur. Voru við góðar undirtektir ferðalanga sungin hefðbundin rútubílasönglög en með sérsniðnum húnvetnskum textum sem var gerður góður rómur að. 

 Næsta morgun þegar ferðalangarnir höfðu hvílst og snætt morgunverð var haldið að Þrídröngum í Vatnsdalshólum og gengið að hólnum þar sem aftakan fór fram 12. janúar 1830. Þaðan var ekið hring um Vatnsdal undir leiðsögn Jóns Gíslasonar frá Sauðanesi, bónda að Hofi í Vatnsdal. Voru ferðalangar fræddir um héraðið og bæi þar.

Ţingeyrar. Í heimsókn hjá Valgerði og IngimundiHápunktur ferðarinnar var heimboð Valgerðar Valsdóttur og Ingimundar Sigfússonar á Þingeyrum en þau buðu félögum öldungadeildar í hádegisverð.

  Síðasti áfangi ferðarinnar var heimsókn að Þingeyrum þar sem félagi í öldungadeildinni, Ingimundur Sigfússon, ræður ríkjum. Þar var skoðuð hin merka steinkirkja og þeir merku gripir sem þar er að finna. Að kirkjuskoðun lokinni var haldið að heimili Ingimundar og konu hans Valgerðar Valsdóttur, þar sem þau buðu til veglegs hádegisverðar sem að var hápunktur ferðarinnar.
  Að heimsókninni lokinni var haldið til Reykjavíkur með viðeigandi áningum og var komið í Álftamýrina um kl. 18 eftir mjög vel heppnaða ferð.


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Öldungadeild » Fréttir

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur