Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

12. september 2012

Umgöngumst valdheimildir af virđingu

Unnur Gunnarsdóttir
 

Unnur Gunnarsdóttir er nýskipaður forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Fréttabréf LÍ spjallaði við hana af því tilefni.

Nú hefur þú fjölbreytta starfsreynslu, hvernig er að gegna forstjórastarfi í sjálfstæðri ríkisstofnun eins og FME miðað við t.d. starf í ráðuneyti?

„Í ráðuneyti er fyrst og fremst verið að móta leikreglurnar en hjá stofnun ertu að beita þeim. Í stofnun er meiri eiginleg sérfræðingavinna. Ég man eftir því úr ráðuneytinu að oft þurfti að leita til stofnana vegna sérþekkingarinnar sem þar er. Reyndar er Fjármálaeftirlitið sérstakt miðað við margar stofnanir vegna þeirra regluheimilda sem stofnunin býr yfir."

Hvernig gengur að halda í löglært starfsfólk?

„Það gengur vel núna. Mér finnst vera kominn fínn stöðugleiki á starfsmannahaldið hjá okkur. Spennan er ekki eins mikil á atvinnumarkaði og var. Ég skynja líka að margir ungir lögfræðingar hafa áhuga á stjórnsýslu, m.a. vegna þeirrar áherslu sem lögð er í kennslunni. Verkefnin hjá okkur eru vissulega sérhæfð varðandi fjármálamarkaðinn. En við höfum verið að styrkja lögfræðiþáttinn og vandaða stjórnsýslu. Lögfræðingarnir hjá okkur eru núna rúmlega tuttugu talsins. Lögfræðingarnir þurfa síðan að kenna samstarfsfólki grundvallaratriði vandaðrar stjórnsýslu.  Það má ekki gleyma því að Fjármálaeftirlitið hefur ríkar heimildir, m.a. til íhlutunar í atvinnufrelsi manna. Við metum hæfi manna til að gegna tilteknum störfum, höfum sektarheimildir og getum svipt fyrirtæki starfsleyfi. Hér er um inngrip í stjórnarskrárvarinn rétt að ræða sem við beitum ekki léttilega. Við umgöngumst þessar heimildir því af sérstakri virðingu en megum heldur ekki vera hrædd við að beita þeim."

Til  hvers horfir þú við val á lögfræðingum til starfa?

„Mér finnst ég sjá gott fólk úr öllum skólunum. Þar eru auðvitað mismunandi áherslur, t.d. virðist stjórnsýsluþátturinn sterkastur hjá HÍ. Það má samt ekki gleyma því að fólk bætir hratt við sig fyrstu árin eftir próf."

Hvernig er samstarfi við systurstofnanir erlendis háttað?

„Sem stendur er engin starfsemi íslenskra fyrirtækja, sem undir okkur heyrir, yfir landamæri. Við erum því ekki í eiginlegu samstarfi við önnur fjármálaeftirlit um að skipta verkum um eftirlit heimaríkis annars vegar og gistiríkis hins vegar. Við erum hins vegar með áheyrnarfulltrúa í nýju eftirlitsstofnunum innan ESB, sem tóku til starfa á síðasta ári,þ.e. Evrópsku eftirlitsstofnuninni á verðbréfamarkaði (ESMA), Evrópsku eftirlitsstofnuninni á bankamarkaði (EBA) og Evrópsku eftirlitsstofnuninni  á vátrygginga- og lífeyrissjóðamarkaði (EIOPA), bæði á stjórnarfundum og í ýmsum vinnuhópum sem semja drög að nýjum reglum fyrir fjármálamarkaðina.  Að auki er Fjármálaeftirlitið aðili að nokkrum alþjóðlegum samtökum, s.s. alþjóðsamtökum um vátryggingaeftirlit, og alþjóðasamtökum um verðbréfamarkaðseftirlit, auk samtaka um aðgerðir gegn peningaþvætti."

Hvaða ráðleggingar hefur þú til ungra lögfræðinga?

„Maður lærir á öllu sem maður gerir. Menn skyldu ekki vanmeta neina reynslu. Þá mætti fólk flýta sér hægt í metnaði að ná stjórnunarstöðum eftir örfá ár í starfi."

Unnur Gunnarsdóttir:

  • Lauk lagaprófi frá HÍ 1983
  • Fulltrúi yfirborgardómara 1985-1989
  • Lögfræðingur hjá Bankaeftirliti Seðlabankans 1990-1995
  • Sérfræðingur hjá EFTA 1995-2000
  • Lögmennska 2000-2002
  • Skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu 2002-2009
  • Settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur 2009-2010
  • Yfirlögfræðingur Fjármálaeftirlitsins 2010-2012

Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur