Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

12. september 2012

Góđur skóli ađ vinna ađ mótun löggjafar

 
Ţóra Hjaltested

Ţóra M. Hjaltested réð sig til Arion-banka í sumar eftir ađ hafa starfað um árabil í stjórnarráðinu. Fréttabréfið ræddi við hana af því tilefni.

Hvernig er að söðla um úr ráðuneyti yfir í einkabanka?

„Það var ákvörðun sem ég hugsaði vel um. Mér hefur líkað vel í stjórnarráðinu, en þar eru unnin mikilvæg og áhugaverð verkefni.  Mér fannst þó æskilegt að útvíkka reynslu mína og þar sem breytingar á ráðuneytaskipan stóð fyrir dyrum taldi ég þetta rétta tímapunktinn. Það er auðvitað heilmikil breyting að söðla um eftir 13 ár en ég get ekki annað sagt en það sé mjög hollt að breyta til og takast á við nýjar áskoranir."

Hver eru þín helstu verkefni? Hvað er að vera hópstjóri í lögfræðiráðgjöf?

„Lögfræðiráðgjöf Arion banka hf. vinnur að lagalegum álitaefnum fyrir allar deildir bankans. Lögfræðiráðgjöfin vinnur í hópum sem sérhæfa sig í ráðgjöf fyrir mismunandi deildir eða einingar bankans. Ég stýri hópi sem sinnir margs konar lagalegum verkefnum fyrir yfirstjórn bankans og stoðsvið hans. Þá heyra samkeppnismálefni undir mína ábyrgð auk samskipta við stjórnvöld m.a. vegna nýrrar löggjafar."

Hefurðu einhverjar ráðleggingar til ungra metnaðarfullra lögfræðinga?

„Lögfræðin er áhugavert fræðisvið og varðar flest svið okkar atvinnulífs. Starfsvettvangur lögfræðinga getur því verið fjölbreyttur. Mín helsta ráðlegging til lögfræðinga er að vera óhræddir við að takast á við krefjandi verkefni en huga jafnframt að því að leita ráðlegginga reyndari samstarfsmanna þegar þörf er á."

Hvaða lærdóm hefurðu dregið af starfinu í stjórnarráðinu, hvað þarf helst að bæta?

„Í stjórnarráðinu eru til úrvinnslu mjög fjölbreytt úrlausnarefni og mikið um stefnumarkandi vinnu. Að fá tækifæri til að vinna að mótun löggjafar í samvinnu við löggjafarvaldið, hagsmunaaðila og jafnvel alþjóðlegar stofnanir er góður skóli og ég hef lært margt á þeim árum sem ég vann í stjórnarráðinu. Ég get eingöngu talað fyrir það ráðuneyti sem ég vann fyrir, en það sem helst hefði mátt bæta þar var vinnuálag. Allt frá því í október 2008 hefur vinnuálag verið mikið en stór og mikil verkefni eru unnin af fáum sérfræðingum, auk þess sem samskipti við löggjafarvaldið og hagsmunaaðila geta verið krefjandi. Þá mætti huga að starfskjörum starfsmanna stjórnarráðsins."

Ertu komin í draumastarfið?

„Ég á enn margt ólært í nýja starfinu. Verkefnin eru áhugaverð og krefjandi og það er skemmtileg áskorun að takast á við verkefni fjármálamarkaðarins frá annarri hlið en ég hef gert fram að þessu, þá er mikið að gerast í umhverfi fjármálaþjónustu þessi misserin sem spennandi er að takast á við. Ég get því sagt að ég er mjög ánægð með þá ákvörðun sem ég tók að skipta um starfsvettvang."

Ţóra M. Hjaltested:

  • Lauk lagaprófi frá HÍ 1999
  • Sérfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, þ.m.t. fullrúi ráðuneytisins í Brussel, 1999-2010
  • Skrifstofustjóri á skrifstofu viðskiptamála og fjármálamarkaðar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu 2010-2012
  • Hópstjóri í lögfræðiráðgjöf Arion-banka 2012

Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur