Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

12. september 2012

Fyrir hverja eru dómstólarnir?

eftir Kristínu Edwald, hrl. og formann LÍ


Í starfi mínu sem málflytjandi hef ég iðulega orðið vör við hversu lítið fólk veit í raun og veru um  íslensku dómstólana. Mér er það ljúft og skylt að fræða þá sem ég flyt mál fyrir um réttarkerfið sem og þá sem ég kalla fyrir dóm sem vitni hvað í því felst. En verra þykir mér að finna hversu lítið þeir sem ekki hafa kynnst dómstólunum af eigin raun vita um starfsemi þeirra.

Fyrir nokkrum árum fékk ég í hendur bækling sem lá frammi hjá öllum norsku dómstólunum. Í honum var útskýrt við hverju fólk mátti búast þegar það bæri vitni fyrir dómi ásamt því að fjalla á stuttan og aðgengilegan hátt um skipulag og starfssemi dómstólanna. Flottur bæklingur sem lét samt lítið yfir sér.

Ţað er áhugavert að skoða heimasíður norsku dómstólanna, www.domstol.no, og íslensku héraðsdómstólanna, www.domstolar.is út frá sjónarhorni almennings. Báðar síðurnar nota ég í mínu starfi en hef hingað til skoðað þær með augum lögmannsins og ekki haft mikið út á þær að setja, þótt ég vildi að leitarvélin á íslensku síðunni væri betri.

Ég komst hins vegar að því að ef maður setur sig í stellingar ólöglærðs er sláandi munur á þeim. Forsíða norsku dómstólanna er hönnuð með þarfir almennings í huga. Löglærðir finna það sem þeir þurfa þar en upplýsingagjöf til almennings er í forgrunni sem er til mikillar fyrirmyndar. Þar er á mjög aðgengilegan hátt að finna almennar upplýsingar um dómskerfið, verkefni dómstólanna, upplýsingar um einkamál og sakamál, stöðu aðila og vitna, hvað gerist í dómsalnum, hvernig á að haga sér í dómsal og hver er hvað í dómsalnum auk handbókar um reglur og góðar venjur í samskiptum dómstólanna og fjölmiðla. Þá er sérstök umfjöllun fyrir skóla þar sem boðið er upp á heimsóknir í dómstólana, verkefni, nánari fræðsla og fleira. Þá er þar einnig að finna myndband þar sem framkvæmdastjóri norska dómstólaráðsins útskýrir starf dómstólanna.

Satt að segja var ég alveg dolfallin þegar ég fór að skoða síðuna í þessu ljósi, síðu sem ég hef margoft farið inn á í störfum mínum og sótt upplýsingar. Íslensku dómstólarnir ættu að taka sér þessa síðu og upplýsingagjöf norsku dómstólanna til fyrirmyndar. Dómstólarnir eru nefnilega fyrst og fremst fyrir almenning en ekki okkur sem erum löglærð.

Ég ætlaði að athuga hvort ég fyndi bæklinginn sem ég nefndi í upphafi á pdf formi á heimasíðunni en rakst þá á annað. Rúsínan í pylsuendanum fyrir tækninördinn mig var nefnilega að sjá „app-ið" -  „Vitne í retten" - snjallsímaforrit með upplýsingum fyrir vitni, eða eins og segir um forritið á tungumáli ömmu minnar: „For noen kan det å bli innkalt som vitne i en rettssak skape uro og usikkerhet. Domstoladministrasjonen har derfor utviklet en informasjonsapp til unge vitner og fornærmede som tar sikte på å skape større trygghet rundt vitnesituasjonen."

Norsku dómstólarnir eru sko með þetta !


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur