Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

12. september 2012

Frelsi til ađ fjalla um nektarstađi


eftir Pál Þórhallsson

Mannréttindadómstóll Evrópu kvað 10. júlí 2012 upp dóma í tveimur íslenskum málum er varða tjáningarfrelsi. Dómarnir sæta þónokkrum tíðindum því þeir leiða í ljós ákveðna vankanta á lögum og lagaframkvæmd hér á landi á þessu sviði. Við því hefur verið brugðist að hluta til með setningu fjölmiðlalaga.


Mál Vikunnar

Í öðru málinu reyndi á dóm Hæstaréttar frá 5. mars 2009 í máli Á gegn B og GEA, blaðamanni og ritstjóra Vikunnar. Blaðið hafði birt viðtal við nektardansmey á staðnum G í eigu Á, þar sem hún kvað vændi og frelsisskerðingu starfsmanna eiga sér stað. Ummælin voru dæmd dauð og ómerk enda fælu þau í sér ásakanir um refsivert athæfi. Um væri að ræða aðdróttun skv. 235. gr. alm. hgl. og ummælin fælu ekki í sér lýsingu á skoðunum eða gildismat heldur fullyrðingar um staðreyndir og þau rúmuðust ekki innan 73. gr. stjórnarskrárinnar. Var B talin bera ábyrgð á þeim samkvæmt prentlögum og hún dæmd til að greiða Á 500 þúsund kr. í miskabætur og málskostnað.

Að mati MDE varðaði greinin málefni sem væri alvarlegt áhyggjuefni á Íslandi líkt og í öðrum Evrópuríkjum. Samt yrði ekki séð að þessi staðreynd hefði haft neitt vægi í mati Hæstaréttar. 
MDE fellst á að ummælin sem féllu um Á hafi verið ærumeiðandi. Hinsvegar hafi hagsmuna Á að verulegu leyti verið gætt með því að hann átti þess kost að fara í meiðyrðamál við nektardansmeyna sjálfa. Álykta má af þessum orðum MDE að fyrir vikið hafi ekki verið mikil þörf á að gera blaðamanninn ábyrgan.


Ţá hafi Hæstiréttur ekkert fjallað um staðreyndir, sem blaðamaðurinn hafi fært fram máli sínu til stuðnings (t.d. atvik þar sem bandarískum sendiráðsstarfsmanni hafi verið boðin kynlífsþjónusta á G), og megi jafnvel draga í efa að henni hafi gefist kostur á að sýna fram á góða trú og sannindi staðhæfinga.


MDE rifjar upp það sem fram hefur komið í fyrri dómum að ekki eigi að koma til álita að refsa blaðamönnum fyrir að breiða út ummæli annarra með viðtölum nema fyrir því séu sérstaklega gild rök. Þau séu ekki fyrir hendi í málinu. Að mati MDE er ekki hægt að áfellast blaðamanninn þótt hún hafi ekki fært sönnur á ummælin, hún hafi verið í góðri trú og í vinnubrögð hennar í samræmi við þá gætni, sem ætlast megi til af ábyrgum blaðamanni, sem fjallar um málefni sem varðar almannahag. Því hafi skilyrði 2. mgr. 10. gr. MSE um nauðsyn takmarkana ekki verið uppfyllt og íslenska ríkið gerst brotlegt við þá grein.

Mál DV

Hinn dómurinn féll vegna kæru frá E, blaðamanni á DV, en með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2009 voru ummæli í grein eftir hana dæmd dauð og ómerk og henni gert að greiða stefnanda 200 þúsund kr. miskabætur og málskostnað. Ekki fékkst áfrýjunarleyfi þannig að héraðsdómurinn var endanlegur í íslenska dómskerfinu. Ummæli þessi voru höfð eftir D og voru á þá lund að V, stefnandi í málinu og eigandi staðarins S, hefði látið kvisast út að enginn skyldi koma með stæla inn á staðinn því hann, „sé þar með litháísku mafíuna“. Einnig var millifyrirsögnin „orðrómur um mafíuna“ ómerkt.

Í dómi héraðsdóms var vitnað í fyrrgreindan Hæstaréttardóm sem fordæmi fyrir því að E bæri ábyrgð umnælunum skv. prentlögum þótt þau væru réttilega höfð eftir viðmælanda blaðamannsins. Ummælin væru til þess fallin að vekja þau hughrif hjá lesendum að V væri með skipulögð alþjóðleg glæpasamtök á sínum snærum. Ekki hefði verið sýnt fram á eða gert sennilegt að þessi staðhæfing væri sönn. Hér væri því um ærumeiðandi aðdróttun að ræða er varðaði við 235. gr. alm. hgl.
Að mati MDE var túlkun héraðsdóms á ummælunum hæpin, þannig mætti vel túlka þau þannig að einstaklingar af þessu tagi væru inn á staðnum og röklega stökkið úr litháískri mafíu í alþjóðlega væri óútskýrt. (Fyrra atriðið er reyndar ósannfærandi hjá MDE.)


Líkt og varðandi Hæstaréttardóminn í Viku-málinu finnur MDE að því að sú staðreynd að umfjöllun blaðsins varðaði mikilvægt málefni fyrir almenning hafi ekki virst hafa neina þýðingu.


Ţá saknar MDE þess einnig að héraðsdómurinn taki tillit til þess að V hafði sjálfur fallist á viðtal (reyndar segir í dómi MDE að hann hafi átt frumkvæðið en það er talið óljóst í héraðsdómnum) við DV þar sem hann var með ávirðingar í garð D. Þannig hafi V vitandi vits boðið heim gagnrýni og því verði hann að þola kröftugri andsvör en ella.


MDE telur að jafnvægi hafi verið í umfjöllun blaðsins með því að báðir aðilar fengu að tjá sig í sömu greininni og ekki sé hægt að gagnrýna blaðamanninn fyrir að hafa ekki gert fyrirvara við innihald yfirlýsinga D.


Að þessu athuguðu sé ekki hægt að áfellast blaðamanninn fyrir að staðreyna ekki sannleiksgildi aðdróttananna, hún hafi verið í góðri trú og háttsemi hennar hafi verið í samræmi við þá varfærni sem búast megi við af ábyrgum blaðamanni. Því hafi skort á að dómur héraðsdóms væri í réttu hlutfalli við þau lögmætu markmið sem að var stefnt og 10. gr. MSE hafi því verið brotin.

Umsögn

Dómar þessir eru mjög lærdómsríkir og sýna ákveðna ágalla í lögum og lagaframkvæmd á þessu sviði hér á landi.


Í fyrsta lagi stenst ekki gagnvart 10. gr. MSE sú nálgun að einungis sönnun ærumeiðandi aðdróttana leysi undan sök. Þessi nálgun kemur fram í héraðsdómnum (sönnun eða að leiða líkur að) og hlýtur að liggja til grundvallar Hæstaréttardómnum þótt ekki komi hún skýrlega fram. Fram kemur í báðum dómunum hjá MDE að það dugi að blaðamaðurinn sé í góðri trú, þ.e. að hann hafi auðsýnt þá varfærni sem ætlast megi til miðað við aðstæður. Það sést líka að ef krafan væri sú að færa yrði sönnur í strangasta skilningi á ásakanir um refsiverðan verknað til að losna undan ábyrgð, þá væru verulegar hömlur lagðar á starfsemi fjölmiðla. Nú er ekki víst að hvaða marki íslenskir dómstólar treysta sér til að breyta túlkun gamalgróinna ákvæða hegningarlaga að þessu leyti. E.t.v. þarf því löggjafinn að taka af skarið og innleiða í íslenskan rétt þessa afdráttarlausu nálgun MDE.


Í öðru lagi er rökstuðningi í forsendum íslensku dómana ábótavant að því er varðar það samhengi sem ummæli falla í, greiningu á þeirri opinberu umræðu sem á sér stað, stöðu þess sem höfðar málið og vinnubrögðum blaðamannsins og hvers megi ætlast til af honum. Aðferðafræði MDE á þessu sviði er orðin mjög rótgróin en er greinilega ekki búin að skila sér fyllilega hingað til lands.


Í þriðja lagi er sú ábyrgðarregla prentlaganna, sem þarna reyndi á of fortakslaus, þ.e. að blaðamaður beri ábyrgð á ummælum viðmælenda líkt og væru þau hans eigin að öðrum skilyrðum uppfylltum. Síðan viðkomandi dómar féllu hér á landi hefur lögum verið breytt þannig að blaðamenn beri ekki ábyrgð ef þeir birta ummæli höfð eftir öðrum með samþykki viðkomandi (1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011). Slík regla hefði að vísu afstýrt því að blaðamennirnir yrðu dæmdir í þeim málum, sem hér hafa verið skoðuð, og þar af leiðandi áfellisdómi yfir íslenska ríkinu. Á hinn bóginn er spurning hvort hún gangi of langt í hina áttina, því eins og fram kemur hjá MDE er ekki útilokað að ríkar ástæður kunni að liggja til þess, við sérstakar aðstæður, að koma fram ábyrgð gagnvart blaðamönnum vegna viðtala sem þeir birta. Auk þess hnýtur maður óneitanlega um þá reglu að samþykki þess, sem ummæli eru höfð eftir, þurfi til að leysa blaðamann undan ábyrgð, en umfjöllun um það efni bíður betri tíma.
 


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur