Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

3. október 2012

Jón Steinar enn gagnrýninn á Hćstarétt

Jón Steinar Gunnlaugsson 

Jón Steinar Gunnlaugsson lét af embætti hæstaréttardómara um síðustu mánaðamót. Fréttabréfið spjallaði við hann af því tilefni.
 
Nú hafðir þú starfað sem lögmaður í áratugi þegar þú varst skipaður í Hæstarétt og hafðir getið þér gott orð sem slíkur. Hver er helsti munurinn á því að starfa sem lögmaður og sem dómari?


„Í grunninn er þetta mjög skylt, í báðum tilfellum er verið að fást við raunveruleg úrlausnarefni í lögfræði. Ég hef sagt áður, að málflutningsreynsla sé mjög góður undirbúningur undir dómarastarf vegna þess aga sem málflytjendur verða að temja sér. Lögmanni sem misstígur sig er ekki sýnd nein vægð. Hann þarf að vanda sig til að verða ekki refsað, ef svo má að orði komast, til dæmis með frávísun frá dómi eða óhagstæðri dómsniðurstöðu sem ræðst af því að hann sleppti málsástæðu sem ráðið hefði úrslitum máls. Það er ekki síður þörf á aga í dómarastarfinu þótt refsisvipan sé reyndar ekki á lofti þar með sama hætti.“


Hvernig gekk lögmanninum að laga sig að breyttu hlutverki?


„Ég átti mjög auðvelt með það. Dómarastarfið hefur hentað mér mjög vel. Ég á auðvelt með að leggja málin niður fyrir mér og taka afstöðu til úrlausnarefnis á grundvelli lagalegra röksemda sem fyrir liggja.“


Hvað stendur uppúr á ferlinum sem dómari?

„Margt kemur í hugann. Það er til dæmis vel þekkt að ég hef skilað fleiri sératkvæðum en aðrir. Það skýrist meðal annars af því, held ég, að ég nálgast málin stundum öðruvísi en starfssystkinin gera. Ef mál snýst um skerðingu á eignum eða frelsi, þá byrja ég á að spyrja hvort sé traust lagaheimild fyrir skerðingu, hvort öll skilyrði séu uppfyllt. Ég reyni að hugsa málið fyrst og fremst út frá réttindum þess sem skerðingu á að sæta. Ef ég ætti að nefna tiltekin dómsmál þá koma hin svokölluðu neyðarlagamál upp í hugann. Þar sat ég í 7 manna dómi og skilaði einn sératkvæði.“


Val á dómurum hefur verið töluvert til um umræðu upp á síðkastið. Hvað finnst þér um þá aðferð sem notuð er? 

„Mér finnst hún fráleit. Það er búið að hanna forskrift sem menn verða að falla inn í til að koma til greina. Þar eru ekki mældir nægilega þeir verðleikar sem mestu skipta. Þess í stað eru mönnum taldir til tekna alls kyns hlutir sem engu máli skipta. Maður sem eingöngu hefur starfað sem málflytjandi eða héraðsdómari frá því hann lauk prófi og verið framúrskarandi sem slíkur, en ekki verið að kenna eða skrifa fræðirit, hann er settur aftar en einhver sem hefur líka verið að dunda við kennslu. Það er næstum því hlægilegt að góðir dómarar eða málflytjendur skuli ekki eingöngu vegna þeirra starfa taldir standa framar en þeir sem hafa setið í nefndum eða kennt lögfræði. Samfélagið þarf að gæta sín á því að eins konar klíka lögfræðinga nái ekki fótfestu í dómskerfnu og taki að stjórna því hverjir setjast í æðsta dómstólinn.“


Traust til stofnana ríkisins, þ.m.t. dómstóla, hefur verið mörgum áhyggjuefni. Hvað er til ráða?

„Traust til Hæstaréttar verður eingöngu að byggja á verkum hans en ekki brellum. Ég tel að dómararnir sjálfir þurfi að verða sýnilegir og er ekki mjög hrifinn af hugmynd um ráðningu blaðafulltrúa sem nefnd hefur verið. Traust sem byggir á einhverju öðru en hlutlægni í verkum og vönduðum úrlausnum er ekki eftirsóknarvert. Það þarf að bæta lagaumhverfið og starfsskilyrðin og þá held ég að traust muni aukast. Eitt af því, sem veldur vandræðum, er hvernig atkvæðin eru skrifuð. Það er augljóst í mörgum málum að erfitt er að finna út hvert sé fordæmið, jafnvel eru dæmi um mótsagnir í einum og sama dóminum. Ástæðan er sú að það er verið að semja um orðalag í dómsforsendum til þess að fá sem flesta dómara um borð í stað þess að einn dómari skrifi atkvæði í sínu nafni og hinir taki svo skriflega afstöðu til þess. Þá  væri minni hætta á að texti yrði óskýr.“


Hvernig sérð þú Hæstarétt þróast á næstu árum og dómskerfið?

„Það þarf að minnka umfangið, það er ótækt að æðsti dómstóll þurfi að dæma í jafn mörgum málum og raun ber vitni og þar með talið fjölda smámála. Þetta verður að leysa með millidómsstigi, Hæstiréttur yrði fámennari og allir dómararnir myndu  dæma í öllum málum sem þá væru hin þýðingarmeiri mál. Þannig ykist fordæmisgildi dómanna. Alls konar vandamál spretta  af því að Hæstiréttur skuli starfa í allt að fjórum deildum. Spyrja má hvers virði fordæmi úr þriggja manna deild sé? Vandkvæðin sem fylgja þessu hafa til dæmis komið í ljós við úrlausn svokallaðra hrunmála.“


Ţað hefur einmitt lent á Hæstarétti að greiða úr gengislánaflækjunni, ekki satt? 

„Grunnástæðan fyrir þeirri flækju liggur hjá löggjafanum. Sett voru lög árið 2001 sem fólu í sér að gerður var munur á tveimur birtingarmyndum af sams konar skuldbindingum, önnur skyldi vera lögleg en hin ekki. Það sjá allir að löggjöf af þessu tagi er til þess fallin að skapa gífurleg vandamál í framkvæmd. Síðan, eftir að fór að reyna á þessi mál fyrir dómi, hafa skapast flækjur umfram það sem ástæða hefur verið til. Þar eykur deildaskiptingin flækjustigið.“


Sú spurning brennur ugglaust á vörum margra hvort þú sért á leið í lögmennskuna aftur eða hvort þú hyggist setjast í helgan stein?

„Ég hef ekki gert ráð fyrir að fara aftur í formleg lögmannsstörf þótt ég kunni að taka að mér einhver lögfræðileg verkefni. Ég hef mestan áhuga á að nota tímann til að skrifa, m.a. um Hæstarétt. Frá fyrstu tíð hef ég haft áhuga á að Hæstiréttur starfaði sem sá dómstóll sem allir ættu að vilja að hann sé og ég hélt á unga aldri að hann væri. Mér lærðist að þar væri margt með öðrum hætti en vera ætti. Þegar fram liðu stundir vildi ég reyna að hafa áhrif á dómstólinn með því að taka þar sæti. Það hefur ekki gengið vel af ástæðum sem ég tala kannski um síðar. Þá blasir við að hætta störfum til að öðlast málfrelsi á ný í því skyni að geta skrifað um þessa reynslu, lagaumhverfið og starfsskilyrði.  Ég mun vonandi halda áfram að reyna að bæta dómskerfið með orðræðu meðan ég hef krafta til.“

Jón Steinar Gunnlaugsson:
• Lauk laganámi frá HÍ 1973
• Sjálfstætt starfandi málflutningsmaður 1977-2004
• Prófessor við Háskólann í Reykjavík 2002-2004
• Skipaður hæstaréttardómari frá 15. október 2004 til 30. september 2012


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur