Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

3. október 2012

Nýtt innlegg í stjórnarskrárumrćđuna

Hádegisfundur 19.sept2012

Lögfræðingafélagið efndi til hádegisverðarfundar  um endurskoðun stjórnarskrárinnar 19. september sl. Þar kynntu Ágúst Þór Árnason, formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri, og Skúli Magnússon, héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, eigin tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá. Þetta framtak þeirra hefur vakið athygli ekki síst vegna þess að þeir sátu í stjórnlaganefnd sem var lögbundin nefnd sem undirbjó starf stjórnlagaráðs. Að sögn þeirra er tilgangurinn ekki sá að baða sig í sviðsljósi heldur setja fram málefnalegan valkost við tillögur stjórnlagaráðs. 


Ágúst Þór rakti í sínu erindi bakgrunn þessara tillagna og þær umræður sem átt hefðu sér stað um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá lýðveldisstofnun. Hann væri ekki sammála því að tala um gildandi stjórnarskrá sem bráðabirgðastjórnarskrá. Mikil breyting hefði falist í því að taka upp lýðveldi með þjóðkjörnum forseta og engar rannsóknir væru til sem sýndu fram á að þjóðin hefði upplifað stjórnarskrána á þeim tíma eða síðar sem bráðabirgðaplagg. Þá spurði hann hvort það væri lögmætt að segja algerlega skilið við núgildandi stjórnskipun eins og hann kvað felast í tillögu stjórnlagaráðs. Sýna þyrfti fram að nauðsyn breytinga og þær þyrftu að gerast á lengri tíma og byggjast á víðtækri sátt.  Ekki væri sjálfsagt mál að telja þjóðina vilja róttækar breytingar.

Skúli fór síðan nánar yfir tillögu þeirra tveggja. Hún væri byggð á því að freista þess ekki að reyna að ráða mörgum stórum álitamálum varðandi stjórnskipun ríkisins til lykta í einu lagi. Tillaga um auðlindaákvæði væri óbreytt úr skýrslu stjórnlaganefndar; engar breytingar væru lagðar til á mannréttindakaflanum nema hvað hann væri færður framar í stjórnarskrána enda væru Íslendingar enn að melta breytingarnar frá 1995; vissulega væri forsetaembættið ekki nægilega vel útfært í lýðveldisstjórnarskránni en efast mætti um að þjóðin væri tilbúin í miklar breytingar á því embætti og því væri einungis lagt til að taka upp ákvæði um lagalega ábyrgð forseta til viðbótar við þá pólitísku ábyrgð sem þegar væri kveðið á um; þá væri lagt til ákvæði um heimild framsal ríkisvalds án þess þó að þar væri kominn grundvöllur að ESB-aðild; staða þingsins væri styrkt, ákvæði væru um fjármál stjórnmálaflokka og hæfi þingmanna sem væri  viðleitni til að horfast í augu við afleiðingar hrunsins.

Í umræðum var spurt nánar um auðlindaákvæðið og skýringu á hugtakinu þjóðareign sem þar er notað. Þá var spurt hvort þeir teldu vænlegt til sátta að breyta ákvæðum um forsetann einungis á þá lund að kveða á um refsiábyrgð hans. Svöruðu þeir því til að nauðsynlegt væri að Alþingi hefði fleiri úrræði en einungis að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu um forsetann með auknum meirihluta ekki síst þegar fram kæmu ásakanir um að forsetinn væri að fara út fyrir valdheimildir sínar. Þótt úrræðið yrði líklega sjaldan notað þá væri það þarft til að koma meira viti í umræðuna um forsetann.


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur