Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

3. október 2012

Hvenćr kemur millidómstigiđ?


Leiðari Kristínar Edwald hrl,. formanns LÍ í 3. tbl. Fréttabréfs LÍ

Í október 2010 stóðu fagfélög lögfræðinga fyrir málþingi um millidómstig. Mikill einhugur ríkti meðal lögfræðinga á þeim vel sótta fundi og ég treysti mér til að fullyrða að þar voru allir sammála um brýna nauðsyn þess að koma á millidómstigi. Í kjölfar málþingsins sendu stjórnir félaganna fjögurra, Ákærendafélagsins, Dómarafélagsins, Lögfræðingafélagsins og Lögmannafélagsins áskorun til dómsmálaráðherra um að beita sé fyrir því að stofnað yrði millidómstig í einkamálum og sakamálum fyrir 1. júlí 2011.

Í desember sama ár skipaði innanríkisráðherra vinnuhóp til að skoða hvort setja ætti á fót sérstakt millidómstig í einkamálum og sakamálum. Niðurstaða hópsins lá fyrir í júní 2011 og kom hún ekki á óvart. Niðurstaðan var sú að full rök stæðu til þess að koma á millidómstigi.

Vinnuhópurinn tók undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á síðustu áratugum, já áratugum, á tveggja dómstiga dómskerfið. Taldi vinnuhópurinn alvarlegast að farið væri verulega á svig við meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir Hæstarétti í lögum og réttarframkvæmd, að óviðunandi væri að sérfróðir meðdómendur skyldu ekki taka þátt í áfrýjunarmeðferð í málum þar sem reyndi á sérkunnáttu og dæmd hafa verið á fyrsta dómstigi af sérfróðum meðdómendum og að óhóflegt vinnuálag í Hæstarétti skapaði hættu á að réttarskapandi áhrif dóma réttarins yrði minni en æskilegt væri.

Ţau atriði sem vinnuhópurinn tiltekur í niðurstöðu sinni eru grafalvarleg og er þessi gagnrýni alls ekki ný af nálinni. Samt er engu breytt.

Í síðustu viku, rétt tæpum tveimur árum eftir málþingið góða, mun svo innanríkisráðuneytið hafa haldið fund um framtíðarskipan ákæruvalds og dómstóla. Það er gott og vel en er ekki komið nóg af fundahöldum? Ítarleg og vel unnin skýrsla vinnuhópsins hefur nú legið fyrir í á annað ár. Niðurstaða hennar er afgerandi og við blasir að í kjölfar hennar var eina rökrétta skrefið að setjast niður og semja frumvarp til breytinga á lögum. Mér er því óskiljanlegt að lagafrumvarp liggi nú ekki þegar fyrir rúmu ári eftir að skýrslan kom út.


Skýrslu vinnuhópsins er að finna á slóðinni: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27198


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur