Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

3. desember 2012

Fyrstu umrćđu um stjórnarskrárfrumvarp lokiđ

Fréttabréf LÍ 4 tbl

 Margt hefur borið til tíðinda í stjórnarskrármálinu undanfarnar vikur. Fyrst ber að telja ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu  sem haldin var 20. október sl. Kjörsókn var um 49%. Tæp 70% vildu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, tæp 83% vildu að í nýrri stjórnarskrá yrðu náttúruauðlindir sem ekki væru í einkaeigu lýstar þjóðareign, rúm 57% vildu að í nýrri stjórnarskrá yrði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi, rúm 78% vildu að persónukjör í kosningum yrði heimilað í meira mæli en í gildandi stjórnarskrá, 66,5% vildu að atkvæða kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt og loks vildu rúm 73% að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna gæti krafist þess að mál væru í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sérfræðingahópur skilar af sér

Ţremur vikum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, eða 12. nóvember 2012, skilaði sérfræðihópur sem skrifstofa Alþingis hafði falið að yfirfara tillögur stjórnlagaráðs frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Tillögurnar höfðu verið lagfærðar með tilliti til innbyrðis samræmis, samræmis við alþjóðlega mannréttindasáttmála og fleiri tæknilegra atriða. Stærsta breytingin var væntanlega sú að í stað margra sértækra skerðingarákvæða varðandi mannréttindi kæmi eitt almennt skerðingarákvæði, sbr. 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Þá var tillögum stjórnlagaráðs breytt að því leyti að tekin voru inn ákvæði núgildandi stjórnarskrár um þjóðkirkju í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Jafnframt kom sérfræðingahópurinn með ýmsar ábendingar um atriði sem skoða þyrfti nánar í meðförum Alþingis. Meðal annars var bent á að enn vantaði heildstætt mat á áhrifum tillagna stjórnlagaráðs. Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði frumvarp síðan fram í þeirri mynd sem sérfræðingarnir skiluðu af sér.

Leitað verður til Feneyjanefndarinnar

Fyrsta umræða fór fram á Alþingi dagana 20.-22. nóvember. Þar kom fram af hálfu leiðtoga meirihlutans að leitað yrði til Feneyjanefndar Evrópuráðsins um skoðun á frumvarpinu. Auk almennrar skoðunar á frumvarpinu væri nefndin beðin um að fara sérstaklega yfir samspil handhafa ríkisvalds í ljósi aukinna möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu og kosningakerfið og áhrif þess á fulltrúalýðræðið. Álits nefndarinnar er að vænta seinni partinn í janúar 2013 en þess má vænta að þeir sérfræðingar, sem nefndin felur að gefa álit, muni sækja landið heim í byrjun janúar og ræða við ólíka stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila til að fá gleggri mynd af stöðunni. Jafnframt kom fram að frumvarpið yrði sent til umsagnar allra nefnda Alþingis þó þannig að ákvæðum þess yrði skipt á milli nefndanna í samræmi við sérsvið þeirra. Ekki liggur fyrir hvaða aðrar úttektir kunna að vera gerðar á frumvarpinu en margir þingmenn hafa kallað eftir því og vísað í því sambandi m.a. til skilabréfs sérfræðihópsins.

Stjórnarþingmenn opna á efnislegar breytingar

Línur skýrðust nokkuð við þessa fyrstu umræðu. Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu áherslu á að sérfræðingahópurinn hefði gengið of langt í sínum breytingum að tvennu leyti, annars vegar með því að fella út úr 13. gr. tilvísun í að eignarrétti fylgdu skyldur. Hins vegar með breytingum á ákvæðum um tjáningarfrelsi- og upplýsingarétt þar sem ekki væri lengur minnst á netfrelsi. Einstaka stjórnarþingmenn gerðu einnig fyrirvara við tiltekin afmörkuð ákvæði. Þannig kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar að hann teldi 39. gr. um alþingiskosningar of ítarlega, ekki væri til bóta að fækka umræðum um lagafrumvörp úr þremur í tvær, hlutverk forseta þyrfti að skoða betur, einkum aðkomu að þingsetningu og erlend samskipti. Katrín Jakobsdóttir velti því einnig fyrir sér hvort kosningaákvæðið væri of ítarlegt, þá væri hún hugsi yfir 87. gr. um sameiginlegar ákvarðanir ríkisstjórnar og að ráðherrar skyldu geta undanþegið sig ábyrgð á þeim með bókun. Einnig yrði að gæta þess að hæfnisnefnd vegna embættismanna, sbr. 96. gr., yrði ekki of valdamikil.  Þá kvaðst Ólína Þorvarðardóttir mótfallin jöfnun atkvæðisréttar og Kristján Möller sagði að bæta yrði lífskjör á landsbyggðinni samhliða jöfnun atkvæðisréttar. Róbert Marshall hvatti til sáttar og þótt hann teldi fært að samþykkja frumvarpið í heild á þessu þingi þá væri hann fús að skoða þann möguleika að breyta einungis 79. gr. (stjórnarskrárbreytingar) á þessu þingi en vinna áfram að sátt og geta þá samþykkt fleiri breytingar á miðju næsta kjörtímabili.

Staldrað við mörg ákvæði

Ţingmenn stjórnarandstöðunnar lýstu því margir hverjir að þeir væru andvígir því að breyta allri stjórnarskránni í einu vetfangi, betra væri að taka einstaka kafla fyrir í einu. Ákvæðið um framsal ríkisvalds kom oft til umræðu, harðir andstæðingar ESB-aðildar töldu til dæmis að reisa ætti frekari skorður en þar væri að finna við mögulegu framsali valds til ESB. Þá gerðu nokkrir ákvæðið um stjórnarmyndanir að umtalsefni  og veltu fyrir sér hvort þar væri sveigt af braut þingræðis. Margir gerðu einnig að umtalsefni hinar miklu breytingar á mannréttindakaflanum og óttuðust réttaróvissu í kjölfarið. Ennfremur var kallað eftir nánari útlistun á því hvað fælist í kröfunni um fullt gjald fyrir tímabundin afnotaréttindi auðlinda samkvæmt 34. gr. frumvarpsins.

Háskólafólk lætur í sér heyra

Til hliðar við þingumræðuna hafa háskólarnir efnt til tveggja málþinga að undanförnu varðandi stjórnarskrána sem hafa vakið töluverða athygli. Fram kom m.a. gagnrýni á endurskoðunarferlið og að miklar breytingar fælust í tillögunum án þess að þær hefðu verið rýndar nægilega vel. Ýmsir úr stjórnlagaráði hafa brugðist við þessu innleggi háskólafólks og bent á að það komi heldur seint fram miðað við stöðu málsins. Þannig lét Vilhjálmur Þorsteinsson svo ummælt á fasbókarsíðu sinni eftir fyrri fundinn: „Mikið vildi ég óska að frummælendur á fundinum í dag hefðu meiri yfirsýn um og ábyrgðartilfinningu gagnvart því sögulega stjórnarskrárferli sem hér hefur átt sér stað frá árinu 2010 og hefur vakið athygli og aðdáun víða um heim. Og skildu betur inntak þess að allt vald kemur frá þjóðinni.“

Nokkur umræða hefur einnig skapast um framhald málsins og þá hugmynd forsætisráðherra að önnur ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin samhliða næstu þingkosningum og þá um frumvarpið eins og það verði afgreitt af þinginu. Björg Thorarensen hefur hins vegar hvatt til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla komi frekar í lok ferlis og að það endurspegli betur að þjóðin sé í raun stjórnarskrárgjafinn. Á móti hefur verið bent á að síðarnefndu tillögunni fylgi sá annmarki að þingið geti þá hafnað frumvarpinu eftir kosningar án þess að þjóðin fái að tjá sig.


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur