Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

3. desember 2012

Forseti ţýska stjórnlagadómstólsins: Viđ ţurfum meiri pólitík á Evrópuvettvangi

 

Andreas Vosskuhle

Athygli heimsbyggðarinnar beindist fyrr í haust að stjórnlagadómstóli Þýskalands þegar hann tók afstöðu til þess hvort björgunaraðgerðir í þágu evrunnar stæðust gagnvart þýsku stjórnarskránni. Í viðtali við franska dagblaðið Le Monde, sem hér birtist í styttri útgáfu, útskýrir Andreas Vosskuhle, forseti þýska stjórnlagadómstólsins, þessa ákvörðun.Stjórnlagadómstóllinn samþykkti miðvikudaginn 12. september að komið yrði á fót evrópsku stöðugleikakerfi (EMS) og að fjárlagasáttmáli ESB yrði að veruleika.

Víða um heim var dómsins beðið í ofvæni. Var ábyrgð ykkar meiri nú en í fyrri málum?

Vissulega bárum við sérstaka ábyrgð í þessu máli. Það er ekki óalgengt að dómstóllinn taki mikilvægar ákvarðanir, en þessi var sérlega afdrifarík.

Hefur dómstóllinn í huga þær afleiðingar sem einstakir dómar geta haft?Takið þið tillit til afleiðinga ákvarðana ykkar?

Við erum dómstóll og erum einungis bundnir af stjórnarskránni. Auðvitað, eru ákvarðanir okkar teknar í ákveðnu samhengi. Við getum samt ekki breytt ákvörðun sem á sér góð lögfræðileg rök vegna mögulegra vandamála sem af henni kunna að hljótast. Sá dómari sem myndi reyna að færa fram stjórnmálaleg rök í samtölum okkar tæki þá áhættu að vera ekki tekinn alvarlega af starfsfélögum sínum. Þeir dómarar sem eiga sér pólitíska fortíð gæta sín sérstaklega vel. Þegar við ígrundum málin þá sannfæra menn aðra með því að færa fram rök byggð á stjórnarskránni og 60 ára dómaframkvæmd.

Kæra sem borin er fram af 37.000 einstaklingum eins og í tilviki EMS, vegur hún þyngra en kæra sem borin er fram af einum einstaklingi?

Nei. Margar þýðingarmiklar ákvarðanir dómstólsins varða kærur þar sem einn einstaklingur átti í hlut. Við teljum ekki hausana heldur spyrjum hvort beiðnin eigi við rök að styðjast.

Á hverju ári leita þúsundir Þjóðverja til dómstólsins. Er það sönnun þess að lýðræðið virki í Þýskalandi eða er það dæmi um að fulltrúalýðræðið hafi brugðist?

Ţetta er athyglisverð spurning. Það er rétt að réttarríkið skipar ríkan sess í Þýskalandi af sögulegum ástæðum. Við það bætist að eftir nasismann þurftu pólitískar stofnanir að ávinna sér traust þjóðarinnar á ný.  Af þessum ástæðum hafa Þjóðverjar alltaf litið á þennan hlutlausa dómstól sem sérstakan vörð lýðræðis og grunngilda stjórnarskrárinnar. Sú staðreynd að dómstóllinn nýtur enn svo mikils trausts sem raun ber vitni er hluti af þýskri velgengni. Að þjóðin, með slíka fortíð, hafi getað öðlast jafnmikinn pólitískan stöðugleika og öfgalaust frjálsræði, er nátengt starfsemi dómstólsins. Auðvitað er stundum litið á slíkan dómstól sem ógn. Enginn stjórnmálamaður er hrifinn af því þegar lög sem hann hefur tekið þátt í að samþykkja eru felld úr gildi. Ég skil líka að stjórnmálamenn í öðrum Evrópulöndum séu ekki hrifnir af því að þurfa að bíða eftir ákvörðun þýska stjórnlagadómstólsins til þess að geta tekið í notkun verkfæri eins og EMS. En þetta er hluti af þýskri stjórnmálamenningu.  

Hvað varðar Evrópu þá er dómaframkvæmd hjá ykkur stundum lýst þannig: Evrópa er ekki sambandsríki heldur eining fullvalda ríkja. Það sé því innan þessara ríkja sem lýðræðislegt aðhald eigi sér stað. Það megi því ekki í nafni evrópsks samruna svipta þingin, sem eru fulltrúasamkomur þjóðarinnar, völdum sínum. Er þetta rétt lýsing?

Nei, ekki alveg. Það er rétt að eins og er þá búum við ekki við evrópskt sambandsríki. Það væri ríki sem réði eigin valdheimildum, eins og lögfræðingar myndu orða það, og þar sem aðildarríkin hefðu ekki lengur forræði á sáttmálunum sem liggja Evrópusambandinu til grundvallar. Sem stendur býst ég við að fæst aðildarríkin væru samþykk slíkri þróun í bráð. Lýðræðið á Evrópuvísu og á landsvísu haldast í hendur. Af þessum sökum hefur stjórnlagadómstóllinn ætíð undirstrikað sérstakt mikilvægi  Evrópuþingsins og aukinna valdheimilda þess.  Núgildandi Evrópusamningar gera það að verkum að þingið er ekki enn jafnoki  þjóðþinganna hvað lögmæti varðar.

Frá sjónarhóli þýsku stjórnarskrárinnar er það m.a. vegna þess að útdeilding þingsæta er ekki  í fullu samræmi við íbúatölu aðildarríkjanna. En samt sem áður hefur Evrópuþingið grundvallarþýðingu, því það er hluti af hugmyndinni um evrópskt lýðræði. Við þurfum að halda áfram að auka valdheimildir þess og lögmæti. Fortíðin hefur einkennst af því að elíturnar hafa ráðið í Evrópu þar sem örfáir réðu því hvernig Evrópa yrði uppbyggð, vissulega í góðum tilgangi og með nokkrum árangri.En í ljósi stöðugt meiri samruna þá getum við ekki haldið áfram á sömu braut. Ef við viljum taka lýðræðið alvarlega verðum við að verða pólitískari á Evrópuvísu. Framtíð Evrópu þarf að vekja heitar umræður á þingunum.

Dómur ykkar um Lissabon-sáttmálann 2009, felur hann í sér takmörk við Evrópusamrunanum?

Dómurinn fjallaði fyrst og fremst um lýðræðislegan grundvöll ákvarðana sem snerta kjarnann í fullveldi þjóðar. Svo fremi þessi grundvöllur sé til staðar er aukinn samruni mögulegur. EMS, sem dómstóllinn taldi að meginstefnu í samræmi við stjórnarskrána, felur í sér stórt skref í átt til aukins samruna. Á skömmum tíma hafa aðildarríkin komið á laggirnar öryggissjóði upp á 700 milljarða evra sem hefur ríkar heimildir en á sér lýðræðislegan grunn. Frá sjónarhól þýsku stjórnarskrárinnar ræður síðasta atriðið úrslitum og gerir það að verkum að þýska þingið getur axlað ábyrgð sína á sviði fjárveitingarvalds. Þetta sýnir að hinn lýðræðislegi grundvöllur, eins og dómstóllinn skilur hann, er ekki  hindrun á vegi samruna.Framvegis verðum við að takast á við þá spurningu hvernig Evrópu við sjáum fyrir okkur af meiri þunga. Þetta snýst um það hvernig stofnanir okkar eigi að virka sem tengist spurningunni, út frá okkar stjórnarskrá, um lögmæti þeirra. Að auki þá veltur afstaða borgaranna til Evrópusambandsins mjög á lýðræðislegu lögmæti ákvarðana sem teknar eru á Evrópuvísu og að hvaða marki Evrópubúum finnst þeir hafa áhrif á þessar ákvarðanir. Kerfi gagnkvæms aðhalds (checks and balances), sem vekur traust með því að veita valdhöfum aðhald, stuðlar að þessu.

Hvernig væri hægt að efla lýðræðið í Evrópu?

Ţað er ekki hlutverk mitt sem forseta stjórnlagadómstólsins að leggja eitthvað til við þá sem bera pólitíska ábyrgð. En frá mínum bæjardyrum séð, þá eru ýmsar leiðir til að efla lýðræðislegar stofnanir og ferli. Eins og ég gat um áður þá tel ég mjög mikilvægt að efla pólitíkina hvað Evrópu varðar. Borgararnir verða að fá á tilfinninguna að á Evrópuþinginu séu líflegar umræður í því augnamiði að finna góðar lausnir. Þeir verða að skynja að það séu ýmsir kostir í boði og að þeir geti haft áhrif. Það er því ekki furða að í Þýskalandi var orðasambandið: „eina leiðin“, með réttu, valið orðaleppur ársins. Þjóðverjar eru ekkert undanskildir í þessu sambandi og mættu líka taka sig á. Af sögulegum ástæðum og vegna sameiginlegrar ábyrgðar okkar og Frakka á Evrópusamrunanum þá var pólitísk umræða um Evrópu alltaf hálfgert tabú. Þeir sem gagnrýndu viss þrep í samrunaferlinu voru útskúfaðir úr samfélagi lýðræðissinna sem aðhylltust Evrópuhugsjónina. Við þurfum á dýpri og gagnrýnni umræðu að halda sem að lokum skapar traust. Það sem ekki virkar til lengdar er sú stefna sem verið hefur við lýði: að telja upp ávinning Evrópusambandsins fram til þessa og segja við borgarana að þeir skuli eftirláta valdhöfum að taka hinar réttu ákvarðanir. Slík hugmynd um lögmæti, sem grundvallast á árangri í fortíðinni, er mjög brothætt vegna þess að hún virkar ekki nema niðurstöðurnar séu sannfærandi. Með þetta að leiðarljósi hefur stjórnlagadómstóllinn, í nokkrum dómum, stuðlað að auknu lýðræðislegu lögmæti. Spurningin var aldrei sú hvort ákvarðanir stjórnmálamanna væru góðar eða ekki. Spurningin, sem réði úrslitum, var hvort þátttökuréttindin, sem lýðræðið gerir kröfu um, hafi verið varðveitt.    


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur