Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

23. apríl 2013

Óáreiđanlegur framburđur í sakamálum

 

Nýlega var birt skýrsla starfshóps innanríkisráðuneytisins um Guðmundar- og Geirfinnsmálin þar sem talið er fullvíst að framburðir dómfelldu hafi verið óáreiðanlegir og líklega falskir. Á hádegisverðarfundi Lögfræðingafélags Íslands 10. apríl sl. kynnti Jón Friðrik Sigurðsson prófessor niðurstöður skýrslunnar ásamt Haraldi Steinþórssyni lögfræðingi en báðir voru í starfshópnum.

Starfshópnum var sérstaklega ætlað að kanna rannsóknarhluta Guðmundar- og Geirfinnsmálanna og  var Gísli Guðjónsson prófessor í London, sem hefur lagt mat á áreiðanleika vitna og sakborninga í fjölda mála víðs vegar um heiminn, skrifað á fjórða hundrað vísindagreinar og nokkrar bækur um þetta efni, fenginn til aðstoðar.


Dagbækur meðal gagna
Starfshópurinn aflaði víða gagna en hann fjallaði um rannsókn málsins hjá lögreglu, og eftir atvikum dómsrannsókn hjá sakadómi, en lagði ekki mat á málsmeðferð fyrir dómi. Tekin voru viðtöl við þá sem sættu gæsluvarðhaldi vegna málsins, þá fjóra eftirlifandi sem hlutu dóm, nokkra þeirra sem komu að rannsókn málsins á sínum tíma og fangaverði úr Síðumúlafangelsinu. Ýmsir aðilar höfðu samband við hópinn og fengu einnig að koma sjónarmiðum á framfæri.


Dagbækur tveggja þeirra er hlutu dóm voru rannsakaðar sem og dagbækur fangelsisins í Síðumúla sem var afar gagnleg heimild um framkvæmd rannsóknarinnar en starfshópurinn áttaði sig á því þegar farið var í þær að einungis hluti af viðtölum og yfirheyrslum voru skráð í skýrslur og sakborningar voru yfirheyrðir miklu oftar en þar kemur fram. Þannig gáfu skýrslur lögreglunnar alls ekki rétta mynd af rannsókn málsins.

Jón Friðrik sagði að við gerð sálfræðimats sé yfirleitt talið óráðlegt að byggja eingöngu á framburði fólks. Mikilvægt sé að leggja mat á öll gögn í máli og staðfesta frásagnir ef unnt er. Minnið er ekki óskeikult og það þarf að hafa í huga þegar lagt er mat á framburð fólks löngu eftir að atburðir áttu sér stað. Ennfremur sagði hann að yfirheyrslur væru í eðli sínu víxlverkandi ferli sem getur orðið mjög flókið. Rannsókn máls getur spillst af ýmsum ástæðum, t.d. geta tengsl milli sakborninga, lengd einangrunarvistunar, líkamleg og andleg heilsa getur skipt miklu máli. Þá var mikið um að rannsakendur færu á milli sakborninga við yfirheyrslur sem  eykur líkur á spilliáhrifum og talsverður þrýstingur var á lögreglu að leysa málið.

Jón Friðrik sagði ennfremur að þýski rannsóknarlögreglumaðurinn sem fenginn var íslensku lögreglunni til aðstoðar hafi, eins og margir rannsakendanna, litið frá upphafi rannsóknarinnar á sakborningana sem seka og sá þýski hafi m.a. rökstutt álit sitt með því að fyrst þau væru sek í Guðmundarmálinu væru þau einnig sek í Geirfinnsmálinu og hann taldi að ósamræmið í framburði sakborninga vera leið til að tefja málið eða villa um sem er sérstakt í ljósi þess að á þessum tíma voru þau öll í einangrun og höfðu ekki greiðan aðgang sín á milli. Þeim var trúað þegar þau játuðu en ekki þegar þau drógu framburð til baka. Þessi rörsýn rannsakenda virðist  síðan hafa smitað allt réttarkerfið.

Allir sakborningar neituðu sök í upphafi en við frekari yfirheyrslur fóru þeir að játa. Fjallað er um þetta í skýrslunni og hvernig rannsakendur fóru að því að fá þá niðurstöðu sem þeir töldu ásættanlega. Jón Friðrik sagði yfirleitt vera tvær meginástæður þess að fólk breytti framburði sínum. Önnur væri sú að lögreglan hefði sannanir sem ekki væri hægt að rengja en hin væri þvinganir og jafnvel hótanir. Það væri t.d. þvingun að vera í einangrun og sakborningar vissu af reynslu, sérstaklega þegar leið á, að það þurfti ekki mikið til að gæsluvarðhaldsúrskurður yrði framlengdur enda komu sömu aðilar að rannsókn og úrskurðuðu um gæsluvarðhald.

Niðurstaða starfshóps afgerandi
Niðurstaða starfshópsins er sú að  það sé hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður og játningar allra sakborninganna, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, voru óáreiðanlegir. Starfshópurinn bætir því svo við að það sé einnig hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður Guðjóns Skarphéðinssonar hafi verið falskur, þannig að mat nefndarinnar er að hann hafi ekki haft hugmynd um atvik Geirfinnsmálsins umfram það sem birst hafði í fjölmiðlum.


Ţegar litið er á Guðmundar- og Geirfinnsmálin í heild sinni er ljóst að eftirfarandi samverkandi þættir hafi dregið úr áreiðanleika framburða sakborninganna. Í fyrsta lagi, lengd einangrunarvistar og tíðar og langar yfirheyrslur. Í öðru lagi, einstaklingsbundnir áhættuþættir s.s. „memory distrust syndrom“ (sakborningar treystu ekki á minni sitt). Í þriðja lagi, tíð óformleg samskipti rannsakenda við sakborninga á meðan á rannsókn stóð, s.s. heimsóknir til þeirra í klefa og ferðir með þá út úr fangelsinu. Í fjórða lagi, fjöldi samprófana, sem gat ýtt undir að sakborningar breyttu framburði sínum, aðeins vegna áhrifa annarra sakborninga. Í fimmta lagi, fjöldi vettvangsferða og tilrauna til að leita að líkum Guðmundar og Geirfinns. Í sjötta lagi, takmörkuð aðstoð lögmanna, en ljóst er að þeir fengu sjaldan að ræða einslega við lögmenn sína og dæmi eru um að þeim hafi beinlínis verið neitað um aðgang að þeim. Í sjöunda lagi, óttinn við að gæsluvarðhaldið yrði framlengt ef rannsakendurnir væru ekki sáttir við framburð þeirra. Í áttunda lagi, þá voru fangaverðir í einhverjum tilvikum að ræða við sakborninga um atvik málanna og fóru með rannsakendunum að leita að líkum Guðmundar og Geirfinns. Þá er greinilegt af gögnum málsins að Gunnar Guðmundsson, yfirfangavörður, var mikið inní rannsókn málanna og ræddi um þau við sakborningana og rannsakendur. Í níunda lagi, þá virðist sem rannsakendur hafi haft „rörsýn“ við rannsókn málanna og haft fyrirfram skoðun á sekt sakborninganna og neikvæð viðhorf til sumra þeirra, einkum Sævars og Kristjáns Viðars. Sem dæmi um rörsýn rannsakenda má nefna að hugsanleg fjarvistarsönnun Sævars í Guðmundarmálinu var ekki könnuð.

Starfshópurinn leggur fram tillögur þar sem fyrsti valkostur er að ríkissaksóknari taki málið upp til hagsbóta fyrir dómfelldu. Annar kostur er að dómfelldu fari sjálf fram á það, þeir sem eru á lífi, og að það verði greitt af opinberu fé. Þriðji valkostur er að sett verði lög sem mæli fyrir um endurupptöku málsins.


Lesa má skýrslu starfshóps hér: Skýrsla starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál
EI


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur