Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

23. apríl 2013

Fundur um áhrif stjórnsýslulaga á starfshćtti og málsmeđferđ: Aukin frćđsla lykilatriđi

Fundur með umboðsmanni Alþingis

Á fjölmennum fundi í Þjóðmenningarhúsinu 12. mars sl. fjallaði Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, um áhrif stjórnsýslulaga á starfshætti og málsmeðferð í stjórnsýslunni. Hann velti fyrir sér hvort þörf væri umbóta og þá hvar.


Um þessar mundir eru liðin 20 ár frá setningu stjórnsýslulaga en þau voru samþykkt á Alþingi í apríl 1993 og tóku gildi 1. janúar 1994.


Tryggvi gerði að umtalsefni hið breytta lagalega umhverfi stjórnsýslunnar á undanförnum áratugum. Má þar nefna auk stjórnsýslulaga, gerð EES-samningsins 1993, lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu 1994 og breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995. Þá voru upplýsingalög sett árið 1996 í fyrsta sinn en þau hafa nýlega verið endurskoðuð. Persónuverndarlög voru sett árið 2000 og þá var nýjum kafla um rafræna stjórnsýslu bætt við stjórnsýslulögin árið 2003. Í sérlögum hefur einnig fjölgað ýmsum sérstökum málsmeðferðarreglum og þá eru regluverk varðandi ýmis málefnasvið orðið flóknara.


Hvar kreppir skóinn?
Hvernig gengur stjórnsýslunni að standa undir auknum kröfum? Fram kom hjá Tryggva að miðað við þau sem mál sem koma til kasta umboðsmanns Alþingis þá sé það ekki lengur svo að stjórnsýslulögum sé ekki fylgt eins og var í árdaga stjórnsýslulaganna.  Nú reyni meira á að beitingu matskenndra reglna sé ábótavant, t.d. um rannsókn máls og efni rökstuðnings. Hann nefndi málshraðann einnig sem vandamál og á það skorti að aðilum væri tilkynnt um tafir. Vandamál væru meira áberandi hjá minni ríkisstofnunum, ýmsum stjórnsýslunefndum og sveitarfélögum.

Á sama tíma og regluverkið væri orðið vandmeðfarnara og flóknara þá væri ljóst að fjárframlög til stjórnsýslunnar hefðu ekki aukist að sama skapi. Menntun starfsfólks væri líka orðin fjölbreyttari en áður sem birtist m.a. í því að lögfræðingum hefði fækkað hlutfallslega.  Tryggvi velti því fyrir sér í þessu sambandi hvort löggjafinn hefði lagt of mikla áherslu á að fjölga kæruleiðum. Það ýtti undir þann hugsunarhátt hjá borgurunum og lögmönnum að skjóta öllum úrlausnum til æðra stjórnsýstigs, sem aftur þýddi lengri málsmeðferð.


Virkja borgarana betur
Hvað er til ráða? Tryggvi nefndi nokkur praktísk atriði sem forráðamenn í stjórnsýslunni gætu haft í huga. Hugsa þyrfti innra skipulag og eftirfylgni út frá formkröfum stjórnsýslulaganna. Stjórnendur þyrftu að gæta þess að fylgjast gaumgæfilega með stöðu mála og gæðum málsmeðferðar og úrlausna. Vonir mætti binda við aukna rafræna stjórnsýslu, en hún byði upp á sjálfsafgreiðslu og þannig framlag borgaranna. Notast mætti meira við stöðluð bréf og tilkynningar. Æðri stjórnvöld mættu nýta betur heimildir til endursendingar mála með það fyrir augum að lægra sett stjórnvöld tækju þau upp að nýju. Þá væri ástæða til að spyrja hvort oft mætti ekki einfalda úrskurði sem upp eru kveðnir.


Tryggvi gerði traust til stjórnsýslunnar að umtalsefni. Ljóst væri að það væri minna en áður eins og til margra annarra sviða innan samfélagsins. Ein ástæðan gæti verið aukin harka í samfélaginu. Nábýli stjórnsýslunnar við stjórnmálin kæmi líka niður á trausti. Þá hefði álag aukist á sama tíma og fjármunir hefðu verið skornir niður. Spurning væri hvort stjórnmálin væru of áhrifamikil í umræðu um stjórnsýsluna og sú neikvæðni sem ríkti í stjórnmálaumræðunni mótaði um of viðhorf til stjórnsýslunnar.


Faglegt sjálfstæði
Vænleg leið væri að efla faglegt sjálfstæði stjórnsýslunnar. Stjórnsýslan þyrfti að huga að því að auka sjálfstæða upplýsingagjöf til almennings þar sem t.d. kæmi fram mat á valkostum og þannig væri stjórnmálamönnum veitt aðhald eða forsendur skapaðar fyrir slíku aðhaldi fjölmiðla og almennings. Varðveita þyrfti ábyrgð í kerfinu, þ.m.t. ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi.
Embætti umboðsmanns Alþingis hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Kvörtunum hefur þannig fjölgað um 40% frá árinu 2010. Kvaðst Tryggvi stundum fá á tilfinninguna að sumir virtust líta á kvörtun til umboðsmanns sem sjálfsagða kæruleið. Í ljósi þessa kvaðst hann velta því fyrir sér hvort leggja bæri meiri áherslu á mál sem hafi almenna þýðingu. Jafnframt væri þörf á að auka leiðbeiningar til stjórnsýslunnar til þess að koma í veg fyrir að embætti umboðsmanns drukknaði í fjölda kærumála.


Í þessu ljósi mætti sjá þá ákvörðun umboðsmanns Alþingis að taka sér leyfi frá störfum í eitt ár og vinna að gerð fræðsluefnis fyrir stjórnsýsluna. Þessu þyrfti síðan að fylgja eftir með skipulegri fræðslu fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. Fram kom á fundinum að Stjórnsýsluskóli Stjórnarráðs Íslands sem hóf störf haustið 2010 sinnir nær eingöngu ráðuneytunum. Athugandi væri að víkka starfsemina út þannig að hún næði einnig til stofnana og jafnvel sveitarfélaga.

Aukinn sveigjanleiki

Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, og Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, brugðust við erindi Umboðsmanns og undirstrikuðu mikilvægi embættisins og góðra samskipta við það og mikilvægi stjórnsýslulaga og skýrra lagareglna þegar kemur að samskiptum við hinn almenna borgara. Mikilvægt væri að byggja upp með markvissum hætti þekkingu og mannauð þeirra sem starfa innan stjórnsýslunnar. Mikil sérþekking og reynsla liggi fyrir hjá mörgum lögfræðingum sem hafi kosið að hasla sér völl á þessu sviði á sama hátt og sú reynsla sem lögmenn, dómarar eða aðrir hópar afli sér á viðkomandi sviðum. Aukinn sveigjanleiki og möguleiki á tilflutningi og endurmenntun og fræðslu muni styrkja þennan hóp enn frekar og þá sérþekkingu sem búi meðal starfsmanna stjórnsýslunnar. Mikilvægt sé að líta til annarra landa sem fyrirmynda og þá ekki síst til Danmerkur og annarra Norðurlanda.  Nefnt var dæmi um að í Danmörku hafi m.a. mótast sú hefð að stjórnmálamenn starfi ekki með virkum hætti á vettvangi ráðuneyta að jafnaði þrjár vikur í aðdraganda kosninga. Þá var m.a. fjallað um gæði lagasetningar hér á landi og velt upp þeirri spurningu hvort stjórnvöld hverju sinni legðu of mikla áherslu á fjölda lagafrumvarpa og hvort breyta mætti viðhorfi í þessu efnum og hugsanlega miða við þá viðmiðunarreglu að samhliða hverju nýju lagafrumvarpi skuli gerð tillaga um að tiltekin lög skuli felld úr gildi.


Ljóst sé að nauðsynlegt sé að tryggja að framkvæma megi löggjöf og fylgja henni eftir samkvæmt efni sínu en því miður séu of mörg dæmi um að svo sé ekki.


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur