Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttabréf

10. janúar 2014

Réttarríkiđ og umrćđan

Leiðari eftir Eyvind G. Gunnarsson, formann Lögfræðingafélags Íslands
 
 

Störf lögfræðinga eru fjölbreytileg og snerta m.a. alla þrjá þætti ríkisvaldsins. Þannig gegna þeir lykilhlutverki í réttarríkinu, m.a. við undirbúning lagasetningar, við úrlausn mála í stjórnsýslunni og við dómstörf. Á undanförnum árum hefur reynt á undirstöður réttarríkisins. Í kjölfar hrunsins hafa Alþingi og stjórnvöld þurft að takast á við risavaxin verkefni, svo sem neyðarlögin og Icesave. Hvað varðar dómstóla sérstaklega má nefna málaferli vegna neyðarlaganna, lánssamninga, gjaldþrotaskipti, flókna fjármálagerninga og efnahagsbrot. Flestir eru sammála um að réttarríkið hafi staðið undir þeim kröfum sem til þess eru gerðar, þótt menn kunni að greina á um einstaka mál.

Réttarríkið er ekki náttúrulögmál sem stendur að eilífu aðhlynningarlaust og án umhugsunar. Staðreyndin er sú að í mörgum stofnunum er unnið afar gott starf án þess að því sé hrósað sérstaklega. Stundum er sagt að eitt helsta einkenni norrænna samfélaga sé traust. Traust almennings til stofnana samfélagsins er mikilvægt. Málefnaleg gagnrýni er af hinu góða. Einhliða og óvægin umfjöllun um stofnanir samfélagsins er til þess fallin að draga úr trausti til þeirra. Slík umfjöllun er raunar eins konar andhverfa gagnrýninnar hugsunar. En hvers vegna? Gagnrýnin hugsun felst í því að skoða allar hliðar máls. Þess vegna er spurning hvort við mættum ekki stundum vera gagnrýnni á „gagnrýnina"?

Ţví hefur stundum verið fleygt í umræðunni að við höfum ekkert lært af hruninu. Ég dreg þessa fullyrðingu stórlega í efa. Þekking lögfræðinga á ýmsum sviðum réttarins, einkum hlutverki lögfræðinnar á fjármálamarkaði, er miklu meiri en áður. Það er hlutverk okkar lögfræðinga að nýta þá þekkingu í þágu samfélagsins. Ábyrgð okkar er því mikil, enda ber engin ein stétt meiri ábyrgð á réttarríkinu en einmitt lögfræðingar.

Margt hefur áunnist á síðustu árum og hafa lögfræðingar gegnt lykilhlutverki við úrlausn erfiðra samfélagsmála. Það er full ástæða til að hrósa því sem gott er og hvetja íslenska lögfræðinga til dáða á vegi dyggðarinnar.

Ágætu félagsmenn, ég óska ykkur öllum velfarnaðar á nýju ári.


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttabréf

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur