Beint á leiđarkerfi vefsins

Fréttir

26. febrúar 2010

dr. Ármann Snćvarr

Kveðja frá Lögfræðingafélagi Íslands

Með Ármanni Snævarr er genginn einn áhrifamesti lögspekingur þjóðarinnar á 20. öld. Nutu flestir lögfræðingar, sem útskrifuðust frá lagadeild Háskóla Íslands á árunum 1948-1989, leiðsagnar hans um skemmri eða lengri tíma. Eftir Ármann liggur fjöldi fræðirita og kom síðast út árið 2008 stórvirkið Hjúskapar- og sambúðarréttur. Kennslugreinar Ármanns voru lengst af sifja-, erfða- og persónuréttur og refsiréttur. Auk þess kenndi hann almenna lögfræði á fyrri hluta kennsluferils síns sem hann mótaði frá grunni miðað við íslenskar aðstæður. Ármann var gerður að heiðursdoktor við lagadeild Háskóla Íslands árið 1993 í tilefni af 85 ára lagakennslu á Íslandi. Var þá sagt í umsögn valnefndar að sá maður væri vandfundinn sem lagt hefði drýgri skerf til íslenskrar lögfræði þann tíma sem lagakennsla hefði farið fram á landinu. Eru það orð að sönnu. Þá var Ármann rektor Háskóla Íslands í samtals 9 ár. Ármann var hæstaréttardómari 1972-1984 og jafnframt stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands til 1989.

Ármann var fyrsti formaður Lögfræðingafélags Íslands og helsti frumkvöðull að stofnun þess ásamt Theodór Líndal, prófessor. Hann var heiðursfélagi lögfræðingafélagsins og bar hag þess ætíð fyrir brjósti. Á stofnfundi félagsins 1. apríl 1948 lét Ármann þessi orð falla: „Ég er þess altrúa, að íslenzkir lögfræðingar skilji það til fullnustu, að á okkur hvílir sú menningarlega skylda að halda uppi öflugum allsherjarfélagsskap til gagns og sæmdar fyrir íslenzka lögfræðingastétt - og okkur ætti hvorki að skorta mannafla né dug til slíks félagslegs framtaks." Með þessum orðum Ármanns, sem enn eru í fullu gildi, var lagður sá grunnur sem starfsemi félagsins hefur byggst á.

Horfinn er yfir móðuna miklu mætur og merkur maður sem skilur eftir sig ómetanlegt ævistarf. Lögfræðingafélag Íslands kveður Ármann Snævar með virðingu og þökk og vottar eftirlifandi eiginkonu og fjölskyldu innilega samúð.

Helgi I. Jónsson, formaður


Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Fréttir

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur