Beint á leiđarkerfi vefsins

Ýmsar greinar úr rafrćnu fréttabréfi LÍ

 

Greinar úr 1. tbl. 1.árg

Að efla rétt og hrinda órétti

eftir Kristínu Edwald formann LÍ.

Á undanförnum misserum hafa heyrst raddir úr andstæðum áttum um lögfræðinga og þátttöku þeirra í opinberri umræðu. Annars vegar heyrist úr röðum lögfræðinga að þeir taki ekki nægilega þátt í opinberri umræðu en hins vegar að lögfræðingar ættu að halda sig til hlés í ákveðnum málum eins og til dæmis varðandi tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Mín skoðun er sú að lögfræðingar eigi að tjá sig miklu meira í opinberri umræðu. Mér finnst raunar jafnfráleitt að þeir tjái sig ekki um setningu stjórnskipunarlaga og ef verkfræðingar mættu ekki reikna út burðarþol húsa. Lögfræðingar búa jú yfir sérþekkingu sem samfélagið þarf nauðsynlega á að halda og lögfræðinni er fátt óviðkomandi.

Eitt mikilvægasta hlutverk okkar lögfræðinga er að standa vörð um réttarríkið, efla rétt og hrinda órétti. Falleg orð um réttlæti og fyrirmyndarþjóðfélag duga hins vegar skammt ef þau eru innantómt hjal. Það er ekki sjálfsagt að búa í réttarríki þar sem mannréttindi eru virt og við verðum ætíð að minnast þess í störfum okkar. Þau okkar sem valdið hafa verða að hafa hugrekki til að standa vörð um grundvallarréttindi einstaklinga og fyrirtækja, gæta meðalhófs og láta ekki tilfinningasveiflur í þjóðfélaginu hafa áhrif á störf sín.

Nú kemur í fyrsta skipti út rafrænt fréttabréf Lögfræðingafélags Íslands. Með þeim hætti gefst kostur á að koma ýmsum fróðleik, fréttum og tilkynningum til félagsmanna á skemmtilegu formi.

Ţað er von mín að félagsmenn leggi einnig sitt af mörkum með stuttum greinum um hver þau hugðarefni sem þeir vilja koma á framfæri á þessum vettvangi. Þáttur í því að við látum ekki okkar kyrrt eftir liggja í þjóðfélagslegri umræðu um mikilvæg álitamál sem brenna á þjóðinni er að við höfum vettvang til að skiptast á skoðunum eða kasta fram hugleiðingum á einfaldan hátt. Tilgangur fréttabréfsins er öðrum þræði að vera slíkur vettvangur, frjór jarðvegur fyrir skapandi umræðu milli lögfræðinga úr ólíkum áttum sem er mikilvægur hlekkur í innlegg lögfræðinga í þjóðfélagsumræðuna.

Með málefnalegri umræðu eflum við rétt og hrindum órétti.

-----  

Vel heppnaður lagadagur

Rúmlega 400 lögfræðingar sóttu Lagadaginn 2012 sem haldinn var í fimmta skipti 4. maí sl. Páll Þórhallsson sótti málstofu um stjórnarskrána er nefndist "Sátt um samfélagssáttmála" og skrifaði eftirfarandi pistil fyrir fréttabréfið.

Að hrökkva, stökkva eða þræða skorninga?
Sú endurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú stendur yfir hefur getið af sér miklar umræður í þjóðfélaginu og sýnist sitt hverjum. Jafnframt hefur mikið nýtt efni orðið til bæði á vettvangi stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs. Það var því vel til fundið að efna til málstofu um nýjan samfélagssáttmála og taka stöðuna á þessu risavaxna verkefni frá sjónarhóli lögfræðinnar.  Málstofan var fjölsótt og umræður líflegar undir öruggri stjórn Hafsteins Þórs Haukssonar lektors við lagadeild HÍ. Aðrir í pallborði voru Bryndís Hlöðversdóttir rektor háskólans á Bifröst, Sigurður Líndal prófessor emeritus og Ragnhildur Helgadóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Umræðunni var skipt í þrjá hluta, þ.e. ferlið fram til þessa, efni tillagna stjórnlagaráðs og hvert yrði framhaldið. 

Hvað aðdragandann snertir þá hefur hann verið allsögulegur og dramatískur á köflum eins og þegar Hæstiréttur ógilti kosningarnar til stjórnlagaþings. Sú spurning vaknar hvort kreppuástand þar sem hatrammar deilur geisa sé góður jarðvegur fyrir nýjan samfélagssáttmála eða hvort það þurfi einmitt ástand af því tagi til að hrinda af stað nauðsynlegum breytingum. Þá er auðvitað vert að staldra við þann mun sem er á tillögum stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs hins vegar, þar sem nefndin gerði fremur varfærnar breytingartillögur við gildandi stjórnarskrá á meðan ráðið leggur fram nýja stjórnarskrá frá grunni. Í málstofunni komu fram áhyggjur af því að ekki væri nógu rík samstaða meðal pólitískra afla um það ferli sem viðhaft hefur verið. Það drægi úr líkum á að verkefnið heppnaðist. Í því sambandi var minnt á að ný stjórnarskrá þyrfti ekki einungis stuðning meirihluta á núverandi þingi heldur einnig eftir næstu þingkosningar. Jafnframt væri æskilegt þegar um grundvallarreglur samfélagsins væri að ræða að sem víðtækust sátt væri um niðurstöðuna. Þótt ekki kæmi það beinlínis fram í umræðum geta menn auðvitað haft misjafnar skoðanir á því hvort yfirleitt hefði verið hægt að skapa meiri samstöðu en raun ber vitni miðað við pólitískt andrúmsloft eftir bankahrunið.
 
Ýmsar ábendingar komu fram um efni tillagna stjórnlagaráðs þótt augljóslega hafi ekki verið tími til að ræða þær í þaula. Fram kom hjá ýmsum að ekki væri við stjórnlagaráð að sakast þótt sumt væri ekki fullklárað í tillögum þess, tíminn sem því var ætlaður var einfaldlega mjög knappur. Bent var á að í mannréttindakaflanum væri ekki nógu ljóst hvers vegna sumum réttindum sem alþjóðasamningar tryggðu væri sleppt. Eins vektu umhugsun þær miklu orðalagsbreytingar sem væri verið að gera án þess að ljóst væri hvort til stæði að breyta efni ákvæða frá því sem nú er.

Nokkuð var rætt um nauðsyn þess að fara mjög gaumgæfilega yfir tillögurnar og leggja mat á áhrif þeirra. Í því sambandi kom til tals að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis áformaði að fá hóp sérfræðinga til að útbúa frumvarp á grundvelli tillagnanna og leggja til breytingar ef þjóðréttarsamningar og önnur lagaleg sjónarmið kölluðu á það. Í máli margra komu fram vonir um að það tækist að auka samstöðuna og ljúka því verki sem hafið væri. Ljóst er að ýmsar breytingar á stjórnarskránni eru orðnar mjög brýnar, t.d. varðandi heimild til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Aðrar breytingar eru minna aðkallandi eins og til dæmis varðandi mannréttindi, enda er það nýjasti kaflinn í gildandi stjórnarskrá. Alþingi stendur nú meðal annars frammi fyrir þeirri spurningu hvort nauðsynlegt sé að afgreiða tillögurnar sem eina heild eða hvort hugsanlega mætti ætla sér lengri tíma í umbætur á stjórnarskránni, ljúka ákveðnum þáttum á þessu kjörtímabili og halda svo áfram á því næsta eða þeim næstu með tillögur stjórnlagaráðs (og stjórnlaganefndar) sem leiðarvísi.

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og sérfræðingur við lagadeild HR.

Skoðanir sem fram kunna að koma af hálfu höfundar eru á hans ábyrgð. 

Auglýsingar


Ţú ert hér:

Um félagiđ » Ýmsar greinar úr rafrćnu fréttabréfi

Stjórnborđ

Information in english Veftré Fyrirspurnir

Stjórnborđ

Stórt letur Lítiđ letur